Heimilið tók til starfa þ. 1. júlí 1979. Fyrstu íbúar komu 8. júlí, en heimilið var vígt þ. 12. janúar 1980 og jafnframt gefið nafn, eftir samkeppni, þar sem bárust yfir 80 tillögur að nafni. Stofnendur voru Dalvík og Svarfaðardalshreppur, en síðar bættist Árskógshreppur við.

Heimilið er sjálfseignastofnun og er rekið á daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands. Dalbær hefur einnig sótt styrki til Dalvíkurbyggðar og fengið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna framkvæmda við húsnæði.

Heimilið hefur alla tíð notið velvildar og góðvilja og fengið margar góðar gjafir. Margir hafa verið stuðningsaðilar, smáir og stórir, einstaklingar og félög sem og fyrirtæki. Með framlagi þessara stuðningsaðila hefur verið reynt að gera heimilið og búnað þess sem heimilislegastan.

Fyrst var Dalbær eingöngu dvalarheimili, en í maí 1985 fékkst leyfi til reksturs hjúkrunardeildar. Í dag eru 26 hjúkrunarrými, 11 dvalarrými og eitt rými fyrir skammtímainnlagnir, tveir aðilar leigja út herbergi og þá má segja að það búi 40 manns á heimilinu. Að auki hefur heimilið 14 dagdvalarrými. Einnig er félagsstarf fyrir aldraða og öryrkja í Dalvíkurbyggð rekið á Dalbæ yfir vetrartímann. Í dag eru 59 starfsmenn á Dalbæ í u.þ.b. 36 stöðugildum.